*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 19. nóvember 2020 17:10

Brim hagnast um 2.600 milljónir

Hagnaður Brims á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 10% milli ára. Félagið hyggst bjóða út skuldabréf fyrir allt að 9.700 milljónir króna.

Ritstjórn
Kristján Þ. Davíðsson er starfandi forstjóri Brims sem og stjórnarformaður félagsins.
Aðsend mynd

Hagnaður Brims nam um 2.600 milljónum króna (16 milljónum evra) á þriðja ársfjórðungi 2020 og dróst saman um tíu prósent milli ára. Afkoma félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins er því jákvæð um tæplega 3.500 milljónir króna miðað við núverandi gengi krónunnar og dróst saman um fjórðung milli ára.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 4.300 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi og dróst saman um fimm prósent milli ára. Handbært fé frá rekstri dróst saman um rúmlega fjórðung milli ára og nam 30 milljónum evra, 4.871 milljón króna.

Í lok þriðja ársfjórðungs 2020 námu eignir Brims 126 milljörðum króna. Þar af voru fastafjármunir um 103 milljarðar króna. Eigið fé nam rúmlega 53 milljörðum og heildarskuldir 72 milljörðum. Eiginfjárhlutfall Brims var 42,5%.

Félagið hyggst bjóða úr skuldabréf fyrir allt að 60 milljónir evra, andvirði 9.710 milljóna króna. Fjármögnunin verður nýtt fyrir fjárfestingar félagsins. Enn fremur hefur Brim tryggt sér skammtímafjármögnun frá banka.

„Endanlegar fjárhæðir mögulegrar skuldabréfaútgáfu munu ráðast af eftirspurn fjárfesta og væntingum um kjör. Samhliða vinnur félagið að skilgreiningu græns fjármögnunarramma sem skuldabréf þess munu falla undir. Þegar slíkur rammi hefur verið skilgreindur og tekinn út af vottunaraðilum hyggst félagið stækka skuldabréfaútgáfu sína með útgáfu grænna eða eftir atvikum blárra skuldabréfa,“ kemur fram í tilkynningu félagsins.

Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims:

„Þrátt fyrir áframhaldandi neikvæð áhrif covid heimsfaraldursins á aðstæður rekstrar og á markaði hefur starfsfólki Brims með samstilltu átaki tekist vel til við rekstur veiða, vinnslu og markaðssetningar við þessar krefjandi aðstæður. Endurnýjun fiskiðjuvers á Norðurgarði er nú langt komin, veiði bolfisks hefur gengið þokkalega og verið áfallalaus. Vertíðir uppsjávarfisks í sumar og á haustmánuðum gengu einnig vel. Því má vel segja að niðurstaða uppgjörs Brims á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 verði að teljast vel ásættanleg.“

Stikkorð: Brim