© Aðsend mynd (AÐSEND)

Brynja Baldursdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fyrirtækjasviðs Creditinfo. Hún tekur við starfi Samúels Ásgeirs White sem leitt hefur sviðið undanfarin ár. Hann hefur snúið sér alfarið að verkefnum fyrir Creditinfo á erlendum vettvangi.

Fram kemur í tilkynningu að Brynja starfaði sem forstöðumaður sölu Símans á einstaklingsmarkaði árin 2010 til 2012 og bar hún m.a. ábyrgð á sölustefnu fyrirtækisins. Árin 2005 til 2010 var Brynja í forsvari fyrir vefdeild Símans og á árunum 2000 til 2002 starfaði hún sem samstæðustjóri hjá OZ communications.

Brynja lauk prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og meistaragráðu í aðgerðagreiningu frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum árið 2003. Hún hefur setið í varastjórn Lífeyrissjóðs verkfræðinga frá 2013 og í stjórn Véla og verkfæra ehf. frá 2011.

Eiginmaður Brynju er Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, og eiga þau tvö börn.