Brynjólfur Ægir Sævarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Advania Advice, ráðgjafateymis Advania. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Brynjólfur er viðskiptafræðingur með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og með próf í miðlun verðbréfa. Hann vann í 12 ár hjá Landsbankanum, lengst af sem útibússtjóri en síðar sem forstöðumaður viðskiptaþróunar. Hjá Landsbankanum hlaut hann einnig vottun í fjármálaráðgjöf. Síðasta árið hefur hann unnið að sprotaverkefnum á sviði fjármálaþjónustu.

Advania Advice er óháð ráðgjafateymi sem styður stjórnendur fyrirtækja í að takast á við áskoranir í stafrænni þróun. Áskoranir á borð við stefnumótun, forgangsröðun í vali á verkefnum ásamt þróun ferla og hönnun þjónustu. Teymið er sagt samanstanda af öflugum ráðgjöfum með mikla reynslu og sérþekkingu.

„Það er akkur að fá til okkar svo reyndan stjórnanda sem sjálfur hefur tekist á við þær miklu áskoranir sem nú eru að gjörbreyta fyrirtækjarekstri,“ segir Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania.