Útlit er fyrir að vöruskiptaafgangur verði á bilinu 50 til 60 milljarðar króna á þessu ári. Gangi það eftir þá verður þetta 27,3 til 17,3 milljörðum minna en í fyrra þegar afgangur af vöruskiptum nam 77,3 milljörðum króna.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar nam afgangur af vöruskiptum 31,1 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins. Það er 9,1 milljarði króna minna en á sama tíma í fyrra.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni deildarinnar lítinn vöruútflutning það sem af er ári skrifast á óhagstæða verðþróun á erlendum mörkuðum og komi það skýrt fram í lægra verði á áli og sjávarafurðum.

Þá segir Greining Íslandsbanka að á móti rýrari afgangi af vöruskiptum í ár séu líkur á umtalsvert meiri þjónustujöfnuði nú en í fyrra. Svipuðu máli gegnir líklega um gjaldeyrisinnflæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta. Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði nam 103,6 milljörðum króna á síðasta ári. Þessi þróun vegur upp á móti verulegu gjaldeyrisútflæði vegna vaxta og afborgana af erlendum skuldum, að sögn Greiningar Íslandsbanka.