Bandaríski fjárfestirinn Warren Buffet, ríkasti maður heims, beinir nú sjónum sínum til Evrópu í leit að hagstæðum kauptækifærum. „Spámaðurinn frá Omaha", eins og hann er jafnan kallaður, mun á næstu dögum ferðast til Þýskalands, Sviss, Spánar og Ítalíu, að því er fram kemur í frétt Financial Times. Buffet hefur aðeins einu sinni áður ráðist í stóra yfirtöku utan Bandaríkjanna.

Á ársfundi Berkshire Hathaway, sem haldinn var í síðasta mánuði, sagði Buffet að fjárfestingarfélagið væri langt í frá jafn áberandi í Evrópu og það ætti að vera. Stjórnendur evrópskra fyrirtækja vonast til þess að áhugi Buffet verði til þess að önnur bandarísk fyrirtæki fylgi í fótspor hans.

Buffet hefur Evrópuferð sína með því að funda með helstu viðskiptaleiðtogum smárra og meðalstórra fjölskyldufyrirtækja í Þýskalandi. Næstum þrír fjórðu hlutar allra fyrirtækja í Þýskalandi eru í eigu fjölskyldna.

Fjölskyldufyrirtæki eru á meðal þeirra allra öflugustu í Evrópu og flest hver starfa í iðnaðargeiranum. Á það er hins vegar bent í Financial Times að mörg þeirra standi frammi fyrir ákveðnum kynslóðavanda og eigi í erfiðleikum með að finna heppilegan eftirmann til að taka við rekstrinum. Þarna gæti Buffet komið til sögunnar -- en hann er frægur fyrir að fjárfesta aðeins í fyrirtækjum sem hann getur skilið.  Hugsanleg kaup Buffets kæmu þá til viðbótar við fjárfestingu hans í ísraelska framleiðslufyrirtækinu Iscar, sem var hans fyrsta stóra yfirtaka utan Bandaríkjanna.

Fram kemur á fréttavef Bloomberg að Berkshire, sem er í þriðjungseigu Buffets, hafi yfir að ráða 35 milljörðum Bandaríkjadala í lausafé og hefur félagið verið að leita að góðum fjárfestingartækifærum til að ávaxta það fé. Buffet hefur á undanförnum árum fjárfest í Kína, Ísrael og Bretlandi. Hins vegar hefur hann sagt að það sé hörgull á fjárfestingartækifærum í Bandaríkjaunum fyrir jafn stórt fyrirtæki og Berkshire.