Warren Buffett, fjárfestirinn frægi, sagði um leið og hann kynnti ársfjórðungsuppgjör fjárfestingafélags síns að hann teldi að lausafjárkrísan sé að minnka. Hagnaður Berkshire Hathaway Inc. þrefaldaðist á milli ársfjórðunga sem gerir honum án efa róra yfir því að hann er nú að ráðast í sína stærstu yfirtöku en það er á járnbrautafélaginu Burlington Northern Santa Fe.

Fyrir félagið hyggst Berkshire greiða 26 milljarða Bandaríkjadala og segist Buffett vera nokkuð sáttur við verðið en hann er þekktur fyrir að kaupa þegar markaðir eru lágir. Buffett hefur ekki verið ónæmur fyrir lausafjárkrísunni og því eru það nokkur tíðindi að hann skuli nú sjá möguleika á að hún sé að linast.

Buffett sagði að vextir á matshæfum fjármálaafurðum væru að lækka en hann er að taka nokkra áhættu með því að taka 8 milljarða dala að láni vegna kaupanna á Burlington. Með því er talin hætt á að hann ógni lánshæfi Berkshire en félagið er með lánshæfið AAA. Það verður að teljast óvenjulegt að Buffett fari í svona kaup út á lánsfé en hugsanlega telur hann verðið svona hagstætt. - Nú eða þá að gamla manninum sé að förlast.