Stjórnvöld Grænhöfðaeyja hafa lokið við þjóðnýtingu á Cabo Verde Airlines (CVA) einungis tveimur árum eftir að íslenskur fjárfestahópur eignaðist meirihluta í félaginu.

Fjárfestahópurinn Loftleiðir Cabo Verde átti 51% hlut í félaginu á móti 39% hlut stjórnvalda Grænhöfðaeyja og 10% hlut starfsmanna félagsins. Þar af átti Icelandair 36% hlut í félaginu en meðal annarra fjárfesta í félaginu má nefna Björgólf Jóhannsson, fyrrum forstjóra Icelandair. Fjárfestahópurinn keypti hlutinn af stjórnvöldum Grænhöfðaeyja á sínum tíma.

Hlutur fjárfestingahópsins í CVA var afskrifaður á síðasta ári og hefur þjóðnýtingin þar af leiðandi lítil áhrif á rekstur Icelandair, stærsta hluthafa félagsins. Tap fjárfestahópsins vegna fjárfestingarinnar var tæpur milljaður króna á síðasta ári.

Í júní bárust fréttir af því að stjórnvöld hefðu lýst yfir óánægju með rekstur félagsins og að þau stefndu að þjóðnýtingu þess  nýjan leik. Sögðu þau að ekki hefði verið staðið við skuldbindingar sem gerðar höfðu verið þegar að félagið var einkavætt. Fjárfestahópurinn keypti hlutinn á 1,3 milljónir evra, tæpumum 200 milljónum króna, og skuldbatt sig til að fjárfesta sex milljónum evra í félaginu.

CVA hætti öllu flugi í faraldrinum en hafði áætlað að hefja aftur alþjóðaflug um miðjan júní en ekkert varð þó af því. Erlendur Svavarsson var forstjóri CVA á meðan það var í meirihlutaeigu hópsins en hann var áður framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Loftleiða.