Greining Íslandsbanka býst við töluverði eftirspurn af ríkisvíxlum á föstudag en þá heldur Seðlabankinn mánaðarlegt útboð á 4 mánaða ríkisvíxlum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun. Eins og áður hefur verið greint frá var talsverður áhugi á síðasta útboði og var tilboðum tekið fyrir 8,1 milljarð króna að nafnverði af 23,8 milljarða heildartilboðum á 7,27% vöxtum.

Þá kemur einnig fram í Morgunkorni að í næstu viku er á gjalddaga 20 milljarða króna víxlaflokkur sem gefinn var út í maí. Greinin Íslandsbanka gerir ráð fyrir að stór hluti þess fjár muni leita í hinn nýja flokk.

„Erlendir aðilar voru einnig atkvæðamiklir í ágústútboðinu og virðist verulegur hluti erlendra fjárfesta kjósa að halda sig í skuldabréfum með sem stystan líftíma,“ segir í Morgunkorni.

Alls voru útistandandi víxlar um síðustu mánaðamót u.þ.b. 64 milljarðar króna að nafnvirði. Þeir víxlar eru allir á gjalddaga fyrir áramót, en í útgáfuáætlun Seðlabankans var miðað við að útistandandi víxlar yrðu 45 milljarðar króna í lok árs.

„Því má gera ráð fyrir að ný útgáfa ríkisvíxla verði í samsvarandi framangreindri tölu það sem eftir er árs ef fylgt verður upphaflegri útgáfuáætlun. Hins vegar kann að vera að áætlunin verði endurskoðuð til hækkunar á stöðu víxla um næstu áramót, og þar með meiri útgáfu það sem eftir lifir árs,“ segir í Morgunkorni.