Búist er við að kostnaður við húsbyggingar og smíði bíla og fleiri iðnaðarvara fari ört vaxandi þar sem búist er við að stálverð hækki um allt að 40%.

Rio Tinto, næststærsta námufyrirtæki heims og eigandi Alcan og álversins í Straumsvík, lét þau boð út ganga á mánudag að fyrirtækið hefði samþykkt að hækka verð á járngrýti um 85%, en það er mikilvægasta hráefnið í stálvinnslu. Þetta kemur í kjölfar þreföldunar á kolaverði sem er annar stór hráefnisþáttur í framleiðslu á stáli.

Fjallað er um þetta á vefsíðunni TIMESONLINE og þar er sagt að sérfræðingar reikni með að stálframleiðslufyrirtækin velti hækkandi hráefniskostnaði beint út í verðlag á framleiðsluvörum sínum. Í síðasta mánuði var gerður samningur á milli Nippon Steel og bílarisans Toyota um 30% hækkun á stáli og reiknað er með að minni kaupendur þurfi nú að takast á við 40% hækkun. Markaðssérfræðingar Japansbanka voru áður búnir að spá 22% hækkun á stáli, en þurfa nú að endurskoða sínar spár.

Þá hefur Rio Tinto ákveðið að hækka verð á grófu járngrýti frá Pilbara námunum í Ástralíu um 95% og fínni málmgrýtissalla um 79,9%. Var það niðurstaða samninga sem Rio Tinto gerði við Baosteel, stærsta stálframleiðanda í Kína, og er reiknað með að þetta verð verði leiðandi í samningum við aðra kaupendur. Eru þetta talsvert meiri hækkanir en brasilíski námurekandinn Vale náði í febrúar, þegar verð á járngrýti frá fyrirtækinu var hækkað um 68%. Sagt er að Rio Tinto hafi getað náð fram meiri hækkunum vegna minni flutningskostnaðar á járngrýti frá Ástralíu en Brasilíu til stálframleiðenda í Asíu.

Reiknað er með að hækkandi hráefnisverð komi til með að skila Rio Tinto 3,8 milljörðum dollara í auknar tekjur. Á síðasta ári halaði fyrirtækið inn 7,4 milljörðum dollara og þar af komu 4,6 milljarðar frá járngrýtisdeildinni. Þá er búist við því að BHP Billiton, stærsta námufyrirtæki heims, klári sína samninga við kaupendur fjótlega og að þeir muni vera í takt við samninga Rio Tinto.