Óvæntur uppgangur í hagkerfum evrusvæðisins á fjórða ársfjórðungi hefur aukið væntingar um að Seðlabanki Evrópu muni þurfa að minnsta kosti að hækka stýrivexti tvisvar til þess að stemma stigu við verðbólgu. Hagvöxtur á evrusvæðinu var 3.3% á fjórða ársfjórðungi, samkvæmt tölum frá Eurostat sem birtar voru í gær. Þjóðverjar drógu vagninn eins og undanfarin misseri ásamt Ítölum: Hagvöxtur þar í landi hefur ekki verið meiri í sjö ár.

Hagfræðingar höfðu spáð 0.3% hagvexti á Ítalíu á fjórða ársfjórðungi en vöxturinn var mun meiri, eða 1.1%. Í annarri skýrslu sem einnig var birt í gær spáir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áframhaldandi hagvexti á evrusvæðinu. Jafnframt sýnir úttekt Evrópsku efnahafsrannsóknarmiðstöðvarinnar (þ. Zentrum für Europäische Wirtschaftsforschung) til að væntingarvísitala þýskra atvinnurekanda sé á uppleið og er það túlkað sem vísbending um aukinn hagvöxt á síðari hluta þessa árs.

Howard Archer, sérfræðingur hjá rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtækinu Global Insight, segir að hagvöxturinn á evrusvæðinu í lok síðasta árs muni eflaust styrkja stjórn Seðlabanka Evrópu í þeirri trú að til frekari hækkana stýrivaxta verði að koma vegna áhyggna yfir verðbólguþrýstingi næstu missera. Archer segir það nánast öruggt að Seðlabanki Evrópu muni hækka vexti í 3.75% í mars, eða um 0.25%. Einnig segir hann að líkurnar á því að stýrivextir á evrusvæðinu verði komnir í fjögur prósent um mitt þetta ár hafi aukist.