Arion - Fundur 10.12.2010
Arion - Fundur 10.12.2010
© BIG (VB MYND/BIG)

Höfuðborgarsvæðið hefur nú náð þeim krítíska punkti að samgöngukerfi þess, byggt á einkabílum og stofnbrautum, er komið að ákveðnum þolmörkum, að mati Ásgeir Jónssonar, efnahagsráðgjafa Gamma og lektors við Háskóla Íslands. Hann skrifar grein um það í Vísbendingu hvernig mismunandi samgöngukerfi hafa ráðið byggð í Reykjavíkurborg í gegnum tíðina.

Í grein Ásgeirs segir að ásókn fólks í það að búa nær miðju borgarinnar hafi vaxið svo það eigi hægar með að sækja vinnu, þjónustu og menningu. Þessu til viðbótar hafa lægri vextir og fleiri möguleikar til fasteignafjármögnunar auðveldað fólki að kaupa húsnæði nær miðju borgarinnar.

Ásgeir skrifar:

„Búsetuvalið stendur á milli þess að „kaupa eða keyra“ – það er kaupa tiltölulega dýrt húsnæði miðsvæðis vegna nálægðarinnar eða keyra langa leið frá ytri mörkum borgarinnar þar sem fermetraverð er lægra en í miðbænum. Báðir þessar þættir – hækkandi eldsneytisverð og lækkandi vextir – hafa nú snúist á sveif með miðbænum. Breytingar í atvinnuháttum, einkum vöxtur þjónstugreina – allt frá ferðaþjónustu til ýmis konar sérhæfðrar þjónustu – munu einnig leggjast á sömu sveif. Þegar litið er fram má búast við aukinni þéttni í búsetu á höfuðborgarsvæðinu og þá jafnframt að bæði fasteignaverð og húsaleiga á miðlægum svæðum muni hækka töluvert. Hægt er að orða það svo að Reykjavík sé aftur á leið til fortíðar.“