Stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla Motors, Elon Musk, telur að Apple muni hefja samkeppni á rafbílamarkaði innan svo lítils sem fjögurra ára - og telur að fyrirtækið muni hanna góðan bíl og nytsamlegan. Þetta sagði hann á ráðstefnu í gær.

„Þau hefðu átt að byrja að vinna í verkefninu fyrr,” sagði Musk. „Það er frábært að Apple sé að gera þetta, og ég vona að verkefnið gangi upp hjá þeim.” Ráðstefnufarar hlógu er hann óskaði Apple góðs gengis og sagði rafbílamarkaðinn rúma enn fleiri samkeppnisaðila.

Þó hefur Elon lengi talað fyrir því að önnur fyrirtæki hasli sér völl á rafbifreiðamarkaði. Það er mikilvægt að hans mati að heimurinn færi sig frá því að nota jarðefnaeldsneyti og yfir í raforku. Því hefur hann alltaf tekið aukinni samkeppni fagnandi.

Orðrómar hafa gengið um fyrirhugaða rafbílaframleiðslu Apple í dágóða stund núna. Miðlar á borð við Wall Street Journal og Bloomberg hafa fjallað um það að upplýsingar varðandi hönnun og framleiðslu þessa rómaða bíls hafi lekið. Apple hefur þó ekki staðfest neinar sögusagnir enn sem komið er.