Centara ehf. hefur fest kaup á upplýsingatæknifyrirtækinu Wise Lausnir ehf., stærsta sölu- og þjónustuaðila hér á landi á Microsoft Dynamics NAV viðskiptabúnaði, fyrir samtals rétt rúmlega 1,1 milljarð króna.

Wise var áður í eigu AKVA group í Noregi, en samkvæmt norsku kauphöllinn fékk félagið 910,8 milljónir íslenskra króna í greiðslu fyrir félagið eftir yfirtöku eigna og skulda í dag 25. september. Til viðbótar fær norska félagið svo tæplega 200 milljónir króna eftir staðfestingu íslenskra yfirvalda á kaupunum, svo heildarverðið nemur 1.107.778.164 íslenskum krónum.

Hjá Wise starfa um 75 sérfræðingar í þróun hugbúnaðar, ráðgjöf og þjónustu, en heildarvelta fyrirtækis á síðasta ári nam 1.517 milljónum króna.

Dótturfélag elsta hugbúnaðarhús landsins

Eigandi Centara ehf. er Hugbúnaður hf. sem er í eigu starfsmanna og Vörðu Capital ehf., sem er fjárfestingarfélag og samstarfsverkefni innlendra fjárfesta og bandarísks fjárfestingarsjóðs um fjárfestingar til uppbygginar í íslensku atvinnulífi. Jónas Hagan Guðmundsson mun í kjölfar viðskiptanna taka sæti í stjórn Wise Lausnum ehf.

Centara ehf. er dótturfyrirtæki félagsins Hugbúnaður hf. sem er eitt elsta hugbúnaðarhús landsins, en það var stofnað 1981 og sérhæfir sig í þróun Centara Retail afgreiðslulausna fyrir sveitarfélög, verslunar- og veitingageirann hér á landi og erlendis.

Wise sérhæfir sig í fjölbreyttum lausnum fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins. Á meðal viðskiptavina Wise eru sveitarfélög og fyrirtæki í sjávarútvegi, fjármálum, framleiðslu, verslun og ýmiskonar sérfræðiþjónustu.

Wise er með stöðu svokallaðs „Gold Partner“ hjá Microsoft og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir starfsemi sína
sína þar á með viðurkenningu sem „Samstarfsaðili ársins,“ hjá Microsoft á Íslandi og fyrirmyndarfyrirtæki VR og CreditInfo um nokkurra ára skeið.

Á meðal helstu vörulausna Wise er WiseFish, lausn fyrir sjávarútveg sem notuð er af stórum sjávarútvegsfyrirtækjum um allan heim, NAV í áskrift, Wise Analyzer greiningartól, sveitarfélagalausnir og fjöldi annara viðskiptalausna.

Hafa unnið saman og deilt húsnæði

„Ég fagna farsælli niðurstöðu í söluferli félagsins. Við höfum átt mjög gott samstarf við Centara ehf., stjórnendur þess og starfsmenn til margar ára," segir Hrannar Erlingsson framkvæmdastjóri Wise. „Auk okkar góða samstarfs höfum við deilt með þeim húsnæði og þekkjum stjórnendur þess vel. Á milli okkar ríkir traust og vinátta.“

Stefán Þór Stefánsson , sem tekur við nýju sviði viðskiptaþróunar hjá Wise, segir mikil tækifæri felast í kaupum á Wise og fjölbreyttar lausnir félagsins vera spennandi. „Þær fjárfestingar sem félagið hefur lagt í undanfarin ár er að stórefla framboð lausna og þjónustu við viðskiptavini hér heima og erlendis. Wise er vel í stakk búið til að takast á við enn frekari sókn á alþjóðamarkaði þar sem við sjáum mikil vaxtartækifæri fyrir félagið í nánustu framtíð," segir Stefán.

Gunnar Björn Gunnarsson stjórnarformaður Wise segir félagið hafa náð frábærum árangri hér heima og erlendis sem hann þakkar mikilli reynslu og þekkingu starfsfólksins á þróun viðskiptahugbúnaðar. „Saman hlökkum við til að takast á við spennandi tækifæri sem félögin hafa myndað saman síðustu ár og munu styrkja okkur enn frekar í þróun og þjónustu lausna fyrir kröfuharða viðskiptavini hér heima og erlendis," segir Gunnar Björn.