Fjöldi bandarískra leikstjóra og annarra lykilmanna í evrópskum kvikmynda- og sjónvarpsgeira hefur sett nafn sitt á stuðningsyfirlýsingu við íslenska kvikmyndagerð. Þar er hvatt til þess að ríkisstjórnin viðhaldi núverandi fjármagni til kvikmyndasjóðs. Þeir sem rita nafn sitt undir yfirlýsinguna hafa allir tekið upp myndir hér á landi. Á meðal þeirra eru Clint Eastwood, Terrence Malick, Darren Aronofsky, yfirmaður framleiðslu á Batman Begins og þeir Dan Wiess og Chris Newman, höfundar og framleiðendur sjónvarpsþáttanna Game of Thrones. Í stuðningsyfirlýsingunni er bent á að öflug íslensk kvikmyndagerð sé undirstaða og forsenda þess að hér séu teknar upp erlendar kvikmyndir.

Framlög lækkuð um 445 milljónir króna

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er lagt til að framlög til Kvikmyndasjóðs verði lækkuð um 445 milljónir króna eða rétt tæp 40% á milli áranna 2013 og 2014. Í tilkynningu segir að þetta valdi því að yfir 200 ársverk tapast í greininni og erlendar tekjur dragist saman um yfir hálfan milljarð króna.

Í stuðningsyfirlýsingunni segir: „Að okkar mati eru þeir íslensku kvikmyndagerðarmenn sem við höfum unnið með fagmenn í hæsta gæðaflokki. Þeir koma ekki einvörðungu með þeirra sérþekkingu í verkefnin, heldur hafa þeir reynst ómetanlegir ráðgjafar um íslenskar aðstæður, hætti og staði og hafa þannig fært ómetanlegan ávinning til okkar verka.“ .

Þá segir í tilkynningu frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda að arið 2006 var gert samkomulag um íslenska kvikmyndagerð og niðurstaðan verið sú að í kvikmyndasjóði þyrftu að vera 700 milljónir króna til að hann gæti uppfyllt markmið stefnumörkunarinnar. Þessi upphæð samsvarar um 1.160 milljónum í dag. Sjóðurinn hefur aldrei náð þessari upphæð.