Stjórn bandaríska flugfélagsins Continental Airlines tilkynnti í gærkvöldi að félagið hefði dregið sig út úr samningaviðræðum við United Airlines vegna lélegrar fjárhagsstöðu United.

Eins og greint hefur verið frá hafa félögin átt í viðræðum um hugsanlega sameiningu.

Reuters fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir viðmælanda kunnugum málinu. Þá er einnig haft eftir sama viðmælanda að hækkandi eldsneytiskostnaður auki áhættuna á því að sameina flugfélög.

Þá hefur Continental Airlines einnig staðið í viðræðum við British Airways og American Airlines um mögulega sameiningu félaga og segir Reuters fréttastofan að þær viðræður muni halda áfram.

Í bréfi til starfsmanna Continental frá stjórn félagsins kemur þó fram að ekki standi til að sameinast neinu flugfélagi um þessar mundir en stjórnin útilokar ekki frekari samstarf við önnur félög og segir Reuters að þar sé helst átt við British Airways.

Bæði sameining og samstarf félaganna er þó háð leyfi samkeppnisyfirvalda og greinir fréttavefur BBC frá því að samningaviðræður Continental og British Airways séu komnar á það stig að á næstu dögum verði leitað eftir áliti samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjunum.

Að leita álits samkeppnisyfirvalda er að öllu jöfnu eitt af síðustu skrefum í samstarfi eða sameiningu þannig að gera má ráð fyrir að þær viðræður milli félaganna séu komnar langt.