Perúska sjávarútvegsfyrirtækið Copeinca stefnir að skráningu í Kauphöllina í Osló á fyrsta fjórðungi 2007, segir Greiningardeild Glitnis.

Þar með bætist við enn eitt sjávarútvegsfyrirtækið en þeim hefur fjölgað hratt undanfarið. Nú á sér stað hlutafjárútboð þar sem félagið stefnir að því að auka hlutafé um allt að 100 milljónir Bandaríkjadala en fyrir er fyrirtækið í eigu tveggja fjölskyldna í Perú, segir Greiningardeildin.

Félagið hyggst nota hlutaféð til frekari ytri vaxtar. Glitnir Securities í Noregi er umsjónaraðili útboðsins og skráningarinnar. Copeinca er fjórða stærsta fiskimjölsfyrirtæki í Perú og gerir út fjölda uppsjávarfiskskipa og mjölverksmiðja. Félagið hefur vaxið hratt undanfarin ár bæði með innri og ytri vexti. Afkoma Copeinca hefur verið mjög góð undanfarin ár, þannig er búist við 40% EBITDA framlegð af rekstrinum í ár. Það skýrist m.a. af því að mjölverð hefur hækkað hratt undanfarin misseri vegna mikillar eftirspurnar frá fiskeldi.

Verðið í hlutafjárútboðinu er 40 norskar krónur á hlut. EV/EBITDA hlutfallið miðað við árið í ár er 7,1 en 5,6 fyrir árið 2007. Þau hlutföll teljast í lægri kantinum í samanburði við önnur sambærileg félög. Til að mynda var EV/EBITDA hlutfall hjá norska sjávarútvegsfyrirtækinu Austevoll 10,1 við skráningu félagsins í Kauphöllina í Osló í fyrra, segir Greiningardeildin.

Helstu óvissuþættir í rekstri Copeinca eru heimsmarkaðsverð á mjöli og óvissa tengd fiskiveiðistjórnunarkerfinu í Perú. Margt bendir til þess að mjölverð muni áfram haldast hátt vegna mikillar eftirspurnar frá fiskeldi og takmarkaðs framboðs frá helstu fiskimjölsframleiðendum. Þá er undirbúningur í gangi um upptöku kvótakerfis í Perú en núverandi kerfi byggir á takmörkuðum fjölda veiðileyfa til einstakra fyrirtækja. Copeinca hefur bætt við sig veiðileyfum á undanförnum árum.