Stærsti viðskiptabanki Frakklands, Credit Agricole tilkynnti í morgun að bankinn hygðist auka hlutafé sitt um 5,9 milljarða evra eða því sem samsvarar um 722 milljörðum íslenskra króna.

Hlutafjáraukning bankans kemur í kjölfar mikilla afskrifta, meðal annars vegna Calyon fjárfestingabankans sem er í eigu Credit Agricole en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nema afskriftir Calyon um 1,2 milljörðum evra.

Hlutabréf í Credit Agricole hafa lækkað um 6,4% í morgun og er það mesta lækkun einstaks félags í CAC 40 vísitölunni í París.

Greiningaraðilar sem Reuters fréttastofan hefur rætt við segja að afskriftir bankans vegna Calyon sé áfall og fjármálamarkaðir megi ekki við slíkum fréttum. Þá segir einn þeirra að bankinn hefði fyrir löngu átt að vera búinn að greina frá þessu.

Í mars síðastliðnum tilkynnti Credit Agricole um tap upp á 857 milljónir evra á fjórða ársfjórðung síðasta árs.

Stjórnendur Credit Agricole hafa þó sagt að framvegis muni bankinn setja meiri fókus á viðskiptahlið sína og láta minna fjármagn til fjárfestingabankastarfssemi sína og þá helst til Calyon.