Metsala var á Crocs skóm á fyrstu þremur mánuðum ársins. Sala á skónum nam 460 milljónum dala á fyrsta fjórðungi ársins sem er 64% hækkun frá sama tímabili á síðasta ári.

Andrew Rees, forstjóri Crocs, segir að eftirspurn eftir skónum sé sterkari en nokkru sinni áður. Hann gerir ráð fyrir að salan í ár verði allt að 50% meiri en á síðasta ári en fyrirtækið hafði spáð því í febrúar að vöxturinn yrði nær 25%.

Margir hafa leitið til Crocs skónna vegna aukinnar heimaveru í faraldrinum en skórnir þykja nokkuð þægilegir. Fyrirtækið hafði hins vegar þegar byrjað að vinna með ýmsu frægu fólki og poppstjörnum til þess að auka vinsældir þeirra á ný, að því er kemur fram í frétt BBC .

Árið 2018 hóf skóframleiðandinn samstarf við tónlistarmennina Justin Bieber, Post Malone og Bad Bunny sem hönnuðu sína eigin Crocs skó. Sérhönnuðu skórnir seldust upp á einungis nokkrum mínútum.

Fyrirtækið hefur einnig lagt áherslu á að bæta netsölu sína sem jókst um 75,3% á fyrsta ársfjórðungnum og nam um þriðjungi af heildarsölunni. Einnig er fyrirtækið búið að leggja mikið púður í kynningarstarf á samfélagsmiðlum en #crocs er nú komið með um 1,6 milljarða í áhorf á TikTok þar sem áhrifavaldar hafa meðal annars sett inn myndbönd af sér dansandi í skónum.

Skóframleiðandinn hyggst halda áfram að starfa með frægu fólki og áhrifavöldum og horfir nú sérstaklega til Asíu sem hann telur vera stærsta vaxtatækifærið til lengri tíma. Einnig vonast fyrirtækið til að nýjar vörur líkt og sandalar hjálpi fyrirtækinu að vaxa.