Bandaríska lyfjafyrirtækið Watson er á síðustu metrum þess að innsigla kaup á Actavis. Í netútgáfu breska viðskiptadagblaðsins Financial Times segir líkur á að tilkynnt verði um viðskiptin á morgun eða fimmtudag, í það minnsta áður en þýski risabankinn Deutsche Bank birtir uppgjör sitt. Uppgjörið verður kynnt á fimmtudag.

Blaðið rifjar upp að Deutsche Bank eigi mikið undir sölunni á Actavis. Bankinn lánaði Novator, félagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, fyrir þorra þess fjármagns sem hann þurfti á að halda til að yfirtaka eignarhaldið síðla sumars 2007.

Blaðið segir að ekki sé búið að skrifa undir kaupsamning. Verðið nemi um 4,5 milljörðum evra, jafnvirði rúmum 750 milljörðum íslenskra króna. Þá hefur það eftir ónafngreindum heimildamönnum að Watson greiði 4,25 milljarða evra út í hönd en 250 milljóni evra nái Actavis settum markmiðum.

Til samanburðar við kaupverðið námu heildartekjur Watson 3,4 milljörðum dala á síðasta ári. Það jafngildir 2,6 milljörðum evra, rúmum 430 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið hefur reynt að fóta sig á lyfjamarkaði utan Bandaríkjanna og er rétt komið með fótinn yfir þröskuldinn. Því til staðfestingar má benda á að aðeins 16% af tekjum Watson voru utan Bandaríkjanna.

En aftur að Deutsche Bank. Gangi viðskiptin í gegn segir Financial Times bankann, sem er helsti kröfuhafi Actavis - og hálfgerður skuggastjórnandi í krafti þess og er með þrjá menn í stjórn af sjö stjórnarmönnum - fá lánið greitt til baka að mestu ef ekki öllu leyti. Líklegt þyki hins vegar að bankinn þurfi að færa niður eitthvað af lánveitingunni í uppgjörinu á fyrsta ársfjórðungi.