Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið að skipa þriggja manna nefnd er vinni að því að móta tillögur um setningu nýrra reglna um skipan dómara, í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu en nefndin er skipuð þeim Guðrúnu Erlendsdóttur, fv. hæstaréttardómara, sem verður formaður hennar, Hákoni Árnasyni hæstaréttarlögmanni og Ómari H. Kristmundssyni stjórnmálafræðingi, dósent við Háskóla Íslands.

Miðað er við að nefndin skili tillögum sínum eigi síðar en 1. september 2009.

Þá kemur fram að fulltrúum almennings og félagasamtaka verður einnig gefinn kostur á að koma að vinnunni og því hefur ráðherra ákveðið að til viðbótar þriggja manna nefndinni verði skipaður sérstakur samráðshópur sem í eigi sæti fimm til sjö fulltrúar tilnefndir af félagasamtökum og fulltrúum atvinnulífsins.

Bryndís Helgadóttir, settur skrifstofustjóri lagaskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, mun verða starfsmaður nefndarinnar.