Star Airlines, dótturfélag Avion Group, hefur eignast 100% hlutafjár í franska fyrirtækinu Crystal. Crystal sérhæfir sig í heildsölu ferða sem seldar eru á netinu og hefur fyrirtækið á skömmum tíma skapað sér leiðandi stöðu í Frakklandi. Kaupverðið er trúnaðarmál segir í tilkynningu Avion.

Velta félagsins á síðasta ári var 14 milljónir evra (um 1.300 milljónir króna) og hagnaður félagsins fyrir skatta var 750 þúsund evrur (um 70 milljónir króna). Áætlanir gera ráð fyrir 16 milljónum evra (um 1.500 milljónir króna) í veltu á yfirstandandi fjárhagsári og einni milljón evra í hagnað (um 90 milljónir króna).

Farþegar Crystal á síðasta ári voru 32 þúsund sem var þreföldun frá árinu áður og áætlanir fyrir yfirstandandi ár gera ráð fyrir 38 þúsund farþegum. Gert er ráð fyrir frekari aukningu farþega á næstu árum þar sem mikill vöxtur er í sölu ferða á netinu.

Crystal selur ferðir til áfangastaða á borð við Króatíu, Marokkó, Mexíkó, Kúbu, Brasilíu, Dómínikanska Lýðveldið og Túnis.

Helstu viðskiptavinir Crystal eru Lastminute, Opodo, Expedia, Karavel og fleiri ferðaskrifstofur.

Crystal, sem var stofnað í ágúst 2003, mun styðja við núverandi starfsemi Star Airlines í Frakklandi. Star Airlines, sem er annað stærsta leiguflugfélag Frakklands, var keypt af Avion Group í febrúar á þessu ári til að byggja upp starfsemi Charter & Leisure sviðs Avion Group utan Bretlands. Star Airlines flutti á síðasta ári rúmlega 900 þúsund farþega til yfir tuttugu áfangastaða. Eftir kaupin flytur Avion Group um sjö milljónir farþega á ári þegar tekið hefur verið tillit til farþega Star Airlines og Crystal.

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group: ?Í Bretlandi höfum við rekið ferðaheildsölu innan Excel Airways Group og hefur það reynst vel. Við ætlum að byggja upp svipað viðskiptamódel hér í Frakklandi og kaupin eru liður í þeirri uppbyggingu.

Kaupin á Crystal auka enn frekar vaxtatækifæri í Frakklandi og eru góð viðbót við Star Airlines, annað stærsta leiguflugfélag Frakklands, sem Avion Group keypti fyrr á árinu. Fyrirtækið veitir okkur aðgang að stórum markaði en íbúar Frakklands eru um 60 milljónir."