Félag í eigu Nýherja, Applicon í Svíþjóð, hefur gert samning við tvö af stærstu fjármálafyrirtækjum Norðurlanda, Swedbank og Nordea, um innleiðingu Calypso, sem er hugbúnaður fyrir viðskipti á verðbréfamörkuðum. Í fréttatilkynningu frá Nýherja segir að samningurinn feli í sér víðtæka innleiðingu á ákveðnum fjármálaafurðum fyrirtækjanna og meðal annars sé gert ráð fyrir að Nordea taki búnaðinn í notkun í nokkrum löndum þar sem fyrirtækið sé með starfsemi.

Í tilkynningunni er haft eftir Heimi Fannari Gunnlaugssyni, sem stýrir alþjóðlegum sölu- og markaðsmálum hjá Applicon, að mikil endurnýjun eigi sér stað á hugbúnaðarlausnum á meðal helstu fjármálafyrirtækja Svíþjóðar. Applicon búi yfir góðri þekkingu á Calypso og SAP hugbúnaði, sem m.a. sé horft til, einkum Calypso eftir að Applicon keypti Marquardt & Partners í upphafi árs í fyrra.

Haft er eftir Heimi Fannari að unnið sé að tækifærum í Þýskalandi, Hollandi, Portúgal, Eistlandi og víðar. Applicon er með starfsemi á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð og hjá félögum Applicon starfa um 170 ráðgjafar.