Kerfi A/S hefur samþykkt að kaupa danska félagið Commitment Data A/S, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Opin Kerfi Group hf. er móðurfélag Kerfi A/S.

Samningurinn um kaupin var undirritaður í dag og tekur strax gildi. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp.

?Kaupin eru í samræmi við þá stefnu Kerfi A/S að útvíkka starfsemi og stækka frekar á heimamarkaði sínum. Kerfi A/S sérhæfir sig í Unix-, Intel- og gagnageymslulausnum ásamt því að veita fjölbreytta ráðgjafar- og þróunarþjónustu. Kaupin á rekstri Commitment Data A/S styrkja þessa sérhæfingu, stórauka vöruúrval og bæta sveigjanleika fyrirtækisins til að takast á við enn stærri verkefni en til þessa," segir í tilkynningu.

Með kaupunum á Commitment Data og kaupum félagsins á WorkIT fyrr á árinu er áæltluð árleg velta félagsins um þrír milljarðar íslenskra króna. Um 70 manns munu starfa hjá félaginu.

Commitment Data A/S var stofnað 1998 til að selja tölvubúnað, aðallega frá HP og IBM, til notenda og hefur undanfarin ár verið fjórða stærsta fyrirtækið á þessum markaði í Danmörku með veltu yfir 200 milljónir danskra króna. Fyrirtækið ræður yfir vel útfærðri vefverslun (e-portal) og hefur nýtt tölvutæknina til að lækka rekstrarkostnað í sölustarfseminni.

Kerfi A/S er hluti af íslensku Opin Kerfi Group hf. samstæðunni. Félagið var stofnað árið 1984 og er með starfsemi í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og á Íslandi. Hjá samstæðunni starfa um 700 starfsmenn, þar af verða hér eftir um 70 í Danmörku, á skrifstofunum í Vejle og í Birkeröd. Viðskiptavinir eru bæði aðilar úr einka og opinbera geiranum um allt land. Opin Kerfi Group hf. eru dótturfyrirtæki Kögunar hf., stærstu upplýsingatæknisamstæðu á Íslandi. Kögun hf. er skráð í Kauphöll Íslands.