Landsbankinn
Landsbankinn
© BIG (VB MYND/BIG)
Horn fjárfestingarfélag hf., dótturfyrirtæki Landsbankans hf., eignaðist í dag 99% hlutafjár í Promens hf. Áður var Promens að stærstum hluta í eigu Atorku hf. Þá átti Horn fyrir 11,82% í A hlutabréfum Promens og 66% í B hlutabréfum. Kaupsamningurinn var undirritaður í febrúar með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Horn seldi umsvifalaust 40% hlut í Promens til Framtakssjóðs Íslands. Kaupverðið er 6,6 milljarðar króna og er að hluta til hlutafjáraukning í Promens sem verður nýtt til lækkunar skulda og til fjárfestinga. Eftir kaupin á Horn 59% hlutafjár í Promens, Framtakssjóður Ísland á 40% og 1% er í eigu lykilstarfsmanna.

"Promens er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu plastafurða og rekur 45 verksmiðjur í 19 löndum. Á árinu 2010 nam hagnaður eftir skatta 1,9 milljarði króna. Hjá félaginu starfa nú um 4.200 starfsmenn, þar af um 80 á Íslandi, þar sem félagið á tvö fyrirtæki, Promens Dalvík og Promens Tempru. Rekstur íslensku félaganna tveggja hefur gengið mjög vel síðustu misseri og ár," segir í fréttatilkynningu.