Hannes Frímann Hrólfsson, sem verður forstjóri Sameinaðs fyrirtækis Auðar Capital og Virðingar, segir að mikil þörf sé á hagræðingu í fjármálakerfinu. Hluthafafundir í báðum fyrirtækjum hafa samþykkt samruna þeirra. „Rekstur fjármálafyrirtækja er mjög kostnaðarsamur. Það eru gríðarlegar kröfur gerðar hvað varðar tölvukerfi, öryggisstaðla, leyfisgjöld og svo framvegis. Á þeim sviðum eru augljós tækifæri til hagræðingar með svona sameiningu. Síðustu misseri hefur starfsfólki fækkað í báðum fyrirtækjunum og nýráðningum verið haldið í lágmarki. Sumir hafa leitað í önnur störf eða farið í nám en í öðrum tilfellum hefur verið fækkað til beinnar hagræðingar í rekstri,“ segir Hannes Frímann og bætir við að starfsmenn hins sameinaða fyrirtækis séu 42 við sameiningu.

Sameining skili jafnframt auknu afli til sóknar. „Sameinað félag er mun betur í stakk búið til þess að sækja fram, til að mynda í samkeppni við bankana,“ segir hann. Hannes segir fulla þörf á frekari hagræðingu í fjármálakerfinu og vonast til þess að sameining Auðar Capital og Virðingar gefi tóninn í þeim efnum. Stefnan sé sett á að efla Virðingu enn frekar. Það sé ekki stefna félagsins að fara út í bankastarfsemi, heldur fyrst og fremst að vaxa sem verðbréfafyrirtæki. „Við lítum svo á að þetta sé ákveðið upphafsskref í þeirri vegferð að efla sameinað fyrirtæki enn frekar. Þá kemur bæði til greina að gera það með innri vexti og leita eftir öðrum möguleikum til ytri vaxtar,“ segir hann. Hannes býst við því að ávinningurinn af sameiningunni sé umtalsverður þó að það muni taka einhvern tíma að ná honum fram að fullu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .