„Bretarnir eru ekki komnir nógu langt með kvennadeildina. Ég fann mikið fyrir því að ég var kona vegna þess að karlaliðið er risastórt," segir Edda Garðarsdóttir, landsliðskona sem hefur losað sig undan samningi við Chelsea. Hún segir jafnrétti í knattspyrnuheiminum í Englandi af skornum skammti, ekki eingöngu hvað laun varðar: „Maður finnur rosalega fyrir því að allir strákarnir í Chelsea, sama þó þeir séu 11 ára, ganga fyrir og konurnar settar smá út í horn. Þetta er á svipuðum stað og var á Íslandi upp úr 1990,“ segir Edda.

Auk þess segir Edda að leikmenn og þjálfarar í kvennadeild Chelsea sem og almennir starfsmenn megi ekki ræða við leikmenn karladeildarinnar að fyrra bragði. „Þú getur verið rekin ef þú brýtur regluna. John Terry, sem hefur spilar mörg hundruð leiki fyrir Chelsea og er enskur landsliðsmaður, kom til mín og sagði hæ, hvernig gengur? og ég hikaði bara. Svo talaði þjálfarinn okkar við hann að fyrra bragði og það var mjög mikið mál. Andrúmsloftið er því mjög sérstakt þarna.“ Auk þess þurfti kvennaliðið að víkja frá líkamsræktaraðstöðunni, sem var í eigu karlaliðsins, ef inn kom einstaklingur út karlaliðinu að sögn Eddu. „Það skipti ekki máli hvort værum búnar að vera þar í 5 mínútur eða klukkutíma, við þurftum að ná í dótið okkar og fara út," segir Edda.

Nánar er spjallað við Eddu Garðarsdóttur í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kemur nú út í fyrsta skipti með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .