Efnahags- og viðskiptaráðuneytið telur að yfirtaka Arionbanka á þriðjungs hlut í HB Granda hafi ekki verið tilkynningarskyld til nefndar um erlenda fjárfestingu. Kom þetta fram í fréttum Ríkisútvarpsins, en ástæðan er sögð vera sú að ekki sé hægt að líta svo á að Arion sé í erlendri eigu.

Ráðuneytið kannaði þetta að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, sem vildi að ráðuneytið kannaði eignarhaldið á Arionbanka og hvort yfirtakan samræmdist lögum um erlenda fjárfestingu.

Í niðurstöðu ráðuneytisins kemur fram að ekki sé hægt að líta svo á að erlendir kröfuhafar Kaupþings eigi Arionbanka, þar sem þeir hafi engin völd eða réttindi í þrotabúinu, heldur aðeins slitastjórn bankans. Ef eignarhald Arionbanka breytist hins vegar þannig að lögin um erlenda fjárfestingu eigi við, þurfi að tilkynna það til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Það á til dæmis við ef útlendingar eignast meira en tuttugu og fimm prósent í bankanum.