„Þegar við vorum að skrifa fyrstu viðskiptaáætlunina okkar fengum við lánaða íbúð á gamla varnarliðssvæðinu,“ segir Gunnar Hólmsteinn, framkvæmdastjóri og einn stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Clöru, aðspurður um eftirminnilegt ferðalag.

„Við læstum okkur þar inni í nokkra sólarhringa og stemningin var nokkuð sveitt. Við vorum fjórir og eyddum dögunum í að skrifa um hvernig við ætluðum að búa til pening úr þessari hugmynd okkar,“ rifjar Gunnar upp. „Við borðuðum mjög mikið af pitsum og þegar að því kom að taka til þá varð til sú hefð að sá sem væri síðastur úr að ofan þyrfti að fara út með pitsukassana. Við köllum þetta „Pant að ofan“,“ segir Gunnar og bætir við að síðan þá hafi þetta fylgt hópnum og komið í stað þess að fólk hrópi „Pant ekki“ þegar kemur að óvinsælum verkefnum.

„Reglan var mikið notuð þar til það bættust konur við hópinn hjá fyrirtækinu en þá varð þetta svolítið flóknara. Það var að lokum ákveðið að stelpur þyrftu að fara í eina flík til viðbótar, til að hafa þetta sanngjarnt. Það virkaði vel og stelpurnar unnu alltaf með bol eða peysu við höndina,“ rifjar Gunnar upp og segir jafnt skyrtur sem ermahnappa hafa legið í valnum eftir að verkefnum var útdeilt.

Spurður að því hvort starfsmenn Clöru haldi áfram að tína af sér spjarirnar í höfuðstöðvum tölvufyrirtækisins Jive Software, sem nýverið keypti Clöru, segir Gunnar það næsta víst. „Við tökum þennan leik mjög alvarlega og niðurstaðan er ávallt óumdeild. Svo þetta mun klárlega fylgja okkur,“ segir Gunnar sposkur að lokum.

Hér á myndinni að neðan má sjá einn af kollegum Gunnars taka þátt í keppninni af fullum móð á einum af fundum Clara.

© Aðsend mynd (AÐSEND)