Vegna verkfalls sjómanna býst Snæfellsbær við 40% samdrætti í tekjum. Þótt bæjarstjórinn telji ekki að sveitarfélagið hljóti fjárhagslegan skaða af til lengdar á það ekki fyrir launum um næstu mánaðarmót.

Þarf bærinn því á fyrirgreiðslu að halda til að standa við skuldbindingar að því er segir í Fréttatímanum í dag. Stór hluti af tekjum sveitarfélagsins, sem inniheldur Ólafsvík, Hellisand og Rif kemur úr sjávarútveginum.

„Núna var landað 1400 tonnum," segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri en í janúar í fyrra hafi verið landað 4.200 tonnum af fiski.

„Við erum að búa okkur undir að það verði 40% tekjutap, það þýðir þá að við eigum ekki fyrir launum. Við höfum ekki staðið frammi fyrir svona vanda áður, allavega ekki síðan ég tók við árið 1998."