Kaupþing banki hefur, í samræmi við samþykkt aðalfundar veitt Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni bankans og Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra, kauprétt að samtals 2.436.000 hlutum í bankanum hvorum um sig, á samningsgenginu 1.007 kr. á hlut að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Kauprétturinn er upp á 2,4 milljarða fyrir hvorn um sig. Samtals eiga þeir sem svarar ríflega 14 milljörðum króna í bankanum og kauprétt upp á ríflega 8 milljarða króna.

Hér miðað við gengi sem er lokagengi í Kauphöll Íslands þann 16. mars 2007 þegar aðalfundur félagsins var haldinn.. Geta þeir Sigurður og Hreiðar nýtt þriðjung kaupréttarins í mars ár hvert, á árunum 2009, 2010 og 2011.


Sigurður Einarsson á 7.368.423 hluti í bankanum samtals að verðmæti 7.420 milljónir króna. Hann á nú kauprétt að 4.060.000 hlutum í bankanum að verðmæti 4.088 milljónir króna. Aðilar fjárhagslega tengdir Sigurði Einarssyni eiga 14.111 hluti í bankanum að verðmæti 14,2 milljónir króna.

Hreiðar Már Sigurðsson á nú kauprétt að 4.060.000 hlutum í bankanum að verðmæti 4.088 milljónir króna. Aðilar fjárhagslega tengdir Hreiðari Má eiga 6.572.039 hluti í bankanum að verðmæti 6.618 milljónir króna. Réttindi aðila fjárhagslega tengdum Hreiðari Má Sigurðssyni samkvæmt framvirkum samningi nema 205.078 hlutum eða 206 milljónum króna.