Björn Hallgrímsson ehf. hefur keypt hlut Ernu ehf. í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins og Blaðsins að því er kemur fram í frétt Morgunblaðsins.

Björn Hallgrímsson ehf. átti fyrir 8,4% í félaginu og hefur nú keypt jafnstóran hlut Ernu ehf. Nemur eignarhlutur Björns Hallgrímssonar ehf. nú 16,74%.

Eigendur Björns Hallgrímssonar ehf. eru systkinin Kristinn Björnsson, Emilía B. Björnsdóttir, Áslaug Björnsdóttir og Sjöfn Björnsdóttir.

Verulegar breytingar hafa orðið í hluthafahópnum á síðasta ári en þá seldi Leifur Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins hlut sinn. Má segja að eignarhald blaðsins hafi skýrst og einfaldast.

Stærsti hluthafi Ávakurs er Björgólfur Guðmundsson en hann tengist með beinum eða óbeinum hætti félögum sem sem fara nú með 63,2% hlut í Árvakri.

Auk félagsins Björn Hallgrímsson ehf. telst félagið Lynghagi ehf. til minnihluta í félaginu en það félag á 8% hlut í Árvakri og hefur verið um það rætt að sá hlutur hafi verið til sölu um nokkurt skeið. Forsvarsmaður þess félags er Hallgrímur Gunnarsson forstjóri Ræsis.