Eignir þrotabús Kaupþings námu 773 milljörðum íslenskra króna í lok september síðastliðins. Þetta kemur fram í skýrslu sem kynnt var á kröfuhafafundi í Silfurbergi í Hörpu í morgun. Til fundarins voru boðaðir þeir sem eiga kröfu á hendur Kaupþingi.

Stærsta eignin er lausafé, en það nemur 404 milljörðum króna. Næststærsta eignin er lán til viðskiptavina en þau nema tæpum 152 milljörðum króna. Að auki á bankinn tæpa 138 milljarða króna í dótturfélögum.

Eignir bankans hafa minnkað um 85 milljarða í krónum talið frá því í lok síðasta árs, en þá voru þær 858 milljarðar. Í evrum talið hafa eignirnar rýrnað um 330 milljónir.

---------------------------------------------
Viðbót klukkan 14:46
Rétt er að taka fram að þessi breyting á eignarstöðu Kaupþings skýrist af tveimur þáttum. Annars vegar breytingum á gengi og hins vegar útgreiðslum vegna forgangskrafna til kröfuhafa eða inn á geymslureikninga.