Hagnaður Eimskipafélags Íslands nam 13,6 milljónum evra á síðasta ára, eða rúmum tveimur milljörðum íslenskra króna, og jókst hann um 25,8% á milli ára. Félagið birti ársreikning sinn í gærkvöldi.

Í honum kemur fram að rekstrartekjur ársins voru 451,6 milljónir evra og jukust um 17,7 milljónir evra á milli ára. EBITDA nam 38,5 milljónum evra og hækkaði um 1,5 milljónir frá fyrra ári.

Í lok árs námu eignir félagsins 332 milljónum evra og skuldir 115,6 milljónum. Nam eigið fé félagsins því 216,5 milljónum evra og var eiginfjárhlutfallið 65,2%.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 7,9% á milli ára og þá jókst einnig flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun um 11%.

Hagnaður fjórða ársfjórðungs tvöfaldast milli ára

Sé aðeins litið til fjórða ársfjórðungs sést að hagnaður félagsins nam 2,3 milljónum evra á tímabilinu, sem er 96% hærri fjárhæð en á sama tímabili árið 2013 þegar hagnaðurinn nam 1,17 milljónum evra.

Þá námu rekstrartekjur 118,8 milljónum evra sem er 11,2% aukning milli ára. EBITDA félagsins á fjórðungnum nam 8,8 milljónum evra og jókst um 12,2% frá árinu 2013.

Tæpur milljarður í arð

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa sem samsvarar 45,7% af hagnaði ársins, sem nemur um 6,2 milljónum evra eða 933,2 milljónum króna.

„Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 7,9% frá fyrra ári. Verulegur vöxtur var í flutningum til og frá Íslandi og Færeyjum. Flutt magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 11,0% frá 2013, einkum vegna flutninga innan Asíu, nýrra vöruflokka, nýrra markaða og aukinna flutninga þar sem Eimskip annast tollafgreiðslu og flutning vörunnar alla leið,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, meðal annars í tilkynningu frá félaginu.