Eimskip hefur veitt fjórum nemendum Fjöltækniskólans Akkerisstyrkinn fyrir árið 2008. Eimskip greiðir nokkrum útvöldum nemendum skólans, á vélstjórnar- og skipstjórnarsviðum, svokallaðan Akkerisstyrk, á ári hverju, segir í fréttatilkynningu.

Styrkurinn er hugsaður til að mæta kostnaði nemenda við skólagjöld, bókakaup og annan kostnað. Auk styrksins mun þessum nemendum bjóðast störf hjá Eimskip bæði á sumrin svo og að námi loknu. Það eru sviðsstjórar skólans sem tilnefndu nemendur til styrksins og er meðal annars litið til námsárangurs nemenda og færni.

Þeir sem fengu styrkinn að þessu sinni eru: Níels Breiðfjörð og Páll Svavar Helgason af vélstjórnarsviði og Gísli Bjarnason og Brynjar Smári Unnarsson af skipstjórnarsviði

„Tilgangurinn með Akkerisstyrknum er að efla góða nemendur enn frekar," segir Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri starfsþróunar- og samskiptasviðs Eimskips. „Einnig erum við að kynna nemendum Fjöltækniskólans starfsemi Eimskips og þá fjölmörgu starfsmöguleika og tækifæri sem þar er að finna bæði innanlands og erlendis. Starfsemi Eimskips er umfangsmikil, fjölbreytt og býður Eimskip upp á spennandi og alþjóðlegt starfsumhverfi. Fyrirtækið er með 14.000 starfsmenn á hátt í 300 starfsstöðvum í um 30 löndum og því eru ótal starfsmöguleikar til staðar fyrir nemendur skólans."

„Það er skólanum mikils virði að góð tengsl séu við atvinnulífið," segir Jón B. Stefánsson, skólameistari Fjöltækniskólans, „og er Akkerisstyrkur Eimskips sannarlega gott dæmi góð tengsl sérstaklega þar sem nemendur skólans hafa beina aðkomu og hagsmuni af þessu samstarfi. Fjöltækniskólinn fagnar frumkvæði Eimskips í þessu tilliti sem er jákvætt innlegg í víðtæka samvinnu sem skólinn þegar hefur við ýmis fyrirtæki tengd því námi sem skólinn annast."