Breska sjóðastýringarfélagið Jupiter Asset Management rekur fjölda sjóða með alls um 60 milljarða evra eða 9 þúsund milljarða íslenskra króna í stýringu. Mark Nichols stýrir sjóði félagsins sem sérhæfir sig í skráðum evrópskum hlutabréfum en hann kom hingað til lands á dögunum til að hitta bæði núverandi og tilvonandi fjárfesta. Alls nema evrópskar eignir Jupiter um 5 milljörðum evra.

Viðskiptavinir Jupiter á Íslandi hafa fyrst og fremst verið lífeyrissjóðir, sem félagið hefur átt í viðskiptasambandi við, marga hverja frá því fyrir hrun. „Það er óhætt að segja að við höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman,“ segir Mark en fulltrúar sjóðsins koma hingað til lands um það bil árlega.

Viðskiptavinir félagsins eru af öllum stærðum og gerðum og frá nánast öllum heimshornum, allt frá einstaklingum til lífeyrissjóða og frá svo gott sem öllum svæðum heimsins nema Bandaríkjunum.

Ekki að reyna að spila á markaðinn

Fyrir utan að fjárfesta aðeins í evrópskum hlutabréfum tekur sjóður Marks hvorki lán né skortstöður og fjárfestir aðeins til langs tíma, og af því tekur öll hans nálgun og fjárfestingarstefna mið.

„Þegar þú fjárfestir í einhverju sem þú sérð fyrir þér að halda í næsta hálfa áratuginn þá viltu vera búinn að kynna þér málið til hlítar fyrst og hafa djúpstæðan skilning á því hvað þú ert að koma þér út í og hvers vegna. Einföld greining á nokkrum lykilstærðum og kennitölum dugir skammt.“

Í þessu felst jafnframt að Mark og félagar horfa lítið til þess hvernig jafnvægið kunni að vera milli ólíkra eignaflokka hverju sinni eða annarra skammtímaþátta sem gjarnan er lögð meiri áhersla á í virkari eignastýringu. „Við erum ekki að reyna að spila á markaðinn. Við rekum evrópskan hlutabréfasjóð og evrópsk hlutabréf er það sem þú færð ef þú kaupir í honum.“

Nánar er rætt við Mark í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.