„Það er þungt hljóðið í okkur öllum. En forsendur eru ekki til staðar og því höfum við ákveðið að draga okkur úr verkefninu,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri bandaríska álrisans Alcoa á Íslandi. Fyrirtækið tilkynnti í dag að það væri hætt við að reisa álver á Bakka.

Forsvarsmenn Alcoa hér á landi hafa fundað með sveitarstjórnum sveitarfélaga á svæðinu í dag.

Tómas segir að unnið hafi verið að undirbúningi álversins í sex ár. Nú liggi hins vegar fyrir að næg orka fæst ekki afhent á samkeppnishæfu verði innan þess tíma sem leitað var eftir.

Undirbúningsvinna hefur kostað Alcoa rúman einn milljarða króna á þessu sex ára tímabili. Áætlanir miðuðu við að störf í álverinu yrðu á bilinu 750 til þúsund til lengri tíma en talsvert fleiri til skamms tíma á meðan framkvæmdum stæði.

„Þetta er reiðarslag fyrir alla sem að verkefninu koma,“ segir Tómas.

Tómas Már Sigurðsson
Tómas Már Sigurðsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)