„Reynslan í aðdraganda fjármálakreppunnar sýnir að þótt óheftar fjármagnshreyfingar geti ýtt undir fjármunamyndun og hagvöxt fylgir þeim einnig áhætta fyrir fjármálakerfið og innlengt efnahagslíf sem nauðsynlegt er að reyna að draga úr með varúðarreglum og öflugu fjármálaeftirliti.“

Þetta segir í upphafi skýrslu Seðlabankans um mögulegar varúðarreglur eftir fjármagnshöft.

Seðlabankinn leggur í ritinu til að heimild verði veitt til að leggja gjald á fjármagnsflutninga til og frá landinu, eða að heimildar til að leggja á bindiskyldu verði rýmkaðar. Þetta er kallað „Stýritæki til að tempra fjármagnsinnstreymi“ og segir í skýrslunni að með þessu séu skoðaðar leiðir til að veita Seðlabankanum ný stýritæki til að sporna við óhóflegum sveiflum í flæði fjármagns sem magna hagsveifluna.

Með þessu vill bankinn að komið verði í veg fyrir óhóflegt innflæði fjármagns og leggur til að gjaldið eða bindiskyldan verði tengd vaxtamun gagnvart útlöndum.

Tillögur að reglum eru í fimm þáttum en auk heimildar til fjármagnsflutningagjalds leggur bankinn til að settar verði skorður við lánveitingum í erlendum gjaldmiðlum til sveitarfélaga heimila og annarra sem ekki hafa tekjur eða eignir í erlendum gjaldmiðli. Til að þessu sé náð leggur bankinn til auknar kröfur um veðhlutföll, auknar kröfur í greiðslumati eða auknar eiginfjárkröfur, sem endurspegla þá gjaldeyrisáhættu sem lánastarfsemi af þessu tagi hefur í för með sér.

„Einnig kemur til greina að banna erlend lán til sveitarfélaga, heimila og annarra sem ekki hafa gjaldeyristekjur eða tekjur sem tengjast gengi erlendra gjaldmiðla,“ segir í skýrslunni.