Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildi hækka stýrivexti um 0,25 prósentur, við síðustu vaxtaákvörðun sem kynnt var fyrir tveimur vikum. Þá ákvað meirihluti nefndarinnar að halda vöxtum óbreyttum, og studdu fjórir nefndarmanna þá tillögu Más Guðmundssonar, seðlabankstjóra og formann nefndarinnar. Fundargerð nefndarinnar er birt í dag.

Nefndarmennirnir fjórir studdu tillöguna á þeim forsendum að hagstæðari verðbólgutölur í ágúst en vænst hafði verið, áframhaldandi gengisstyrking krónunnar og lakari horfur í heimsbúskapnum gerðu peningastefnunefndinni kleift að halda vöxtum óbreyttum.

Nefndarmaðurinn sem kaus á móti taldi vega þyngra þrálátar og háar verðbólguvæntingar og hættuna á því að mikil verðbólga felstist í sessi, segir í fundargerðinni.. „Hann hélt því einnig fram að drifkrafturinn í þjóðarbúskapnum gæfi tilefni til að halda áfram að draga smám saman úr slaka peningastefnunnar og að þróunin á alþjóðavettvangi hefði takmörkuð áhrif á innlenda raunhagkerfið til skamms tíma litið vegna lítils vægis útfluttra iðnaðarvara sem einkum verða fyrir barðinu á sveiflum á heimsmarkaði. Þessi nefndarmaður áleit einnig að með því að halda vöxtum óbreyttum á þessum fundi væri hugsanlega verið að grafa undan þeim skilaboðum sem send voru með ágústákvörðuninni.“

Fram kom í umræðum að þó verðbólga hafi aukist verulega undanfarna fimm mánuði hefði verðbólgumælingin í agúst verið heldur hagstæðari en vænst var. „Engu að síður voru nefndarmenn áfram þeirrar skoðunar að verðbólguhorfur hefðu ekki breyst í grundvallaratriðum. Á sama tíma sköpuðu þó hræringar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að undanförnu og vísbendingar um veikari alþjóðlegan hagvöxt óvissu um verðbólguhorfur og innlendan hagvöxt,“ segir í fundargerðinni.

Fundargerð peningastefnunefndar .