Á næstu mánuðum hyggst fyrirtækið Verðbréfamiðstöðin hf. hefja samkeppni við Nasdaq á Íslandi. Að miðstöðinni standa tveir viðskiptabankar og fimm lífeyrissjóðir sem fara samanlagt með 70% eignarhlut á móti einkafjárfestum sem fara með 30% hlut.

Einar, Arnar og Lagahvoll meðal eigenda

Þar á meðal er til að mynda Einar S. Sigurjónsson, sem var framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands á árunum 1998 til 2013 og Arnar Arinbjarnarson fyrrverandi yfirmaður viðskiptaþróunar MP banka.

Auk þeirra mun lögfræðistofan Lagahvoll eiga í félaginu, en eigendur hennar eru héraðsdómslögmennirnir Jóhann Tómas Sigurðsson og Daði Bjarnason. Kemur þetta fram í DV í dag .

Nasdaq í Bandaríkjunum hefur hagnast vel á einokun Íslandi

Hingað til hefur kauphöllin Nasdaq á Íslandi, sem er í eigu Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings, en það er í eigu NasdaqOMX frá Bandaríkjunum, haft einokun á rekstri verðbréfamiðstöðvar hér á landi.

Mikill hagnaður hefur verið á rekstri félagsins á undanförnum árum, jókst hann um 60 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári og nam samtals 328 milljónum. Jafngildir það 54% ávöxtun á eigið fé, sem var 607 milljónir í árslok 2015.

Gjaldskrárlækkanir þegar orðnar

Gert er ráð fyrir að Verðbréfamiðstöðin taki til starfa snemma á næsta ári og verður boðið upp á sömu þjónustu og fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og hið opinbera kaupa af Nasdaq, það er útgáfa, varsla og uppgjör verðbréfa.

Fyrr á árinu lækkaði Nasdaq gjaldskrá sína, má þar nefna að grunnvörsluþóknun sem er einn helsti tekjuliðurinn lækkaði um 10% svo væntanleg samkeppni er þegar farin að hafa áhrif.

Arion, Íslandsbanki og lífeyrissjóðir eigendur

Meðal eigenda eru Arion banki og Íslandsbanki ásamt Lífeyrissjóði verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Lífsverk lífeyrissjóður eiga hver 10% hlut.

Stjórnarmenn í Verðbréfamiðstöðinni eru Gísli Kr. Heimisson fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs MP banka, Vilmundur Jósefsson, fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins og stjórnarmaður í Vodafone og Sigþrúður Ármann, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Exedra.