„Ég fer heim til mín um hverja helgi ef ég mögulega get. Við hjónin höldum tvö heimili. Ég bý á Akureyri, konan mín og yngsti sonur okkar eru þar og væntanlega verður dóttir okkar líka með okkur næsta vetur,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef verið eins og togarasjómaður í sex ár frá því að ég var kjörinn á Alþingi. Ég vil ekki flytja frá Akureyri og um það er samstaða innan fjölskyldunnar. Okkar heimili er þar,“ segir Kristján Þór um leið og hann heldur því fram að honum þyki ferðalögin ekki lýjandi. „Ekki þegar maður er orðinn vanur. Þegar þú kemur loksins heim, eftir snarpa vinnuviku, þá ertu kannski ekki mikið úti að hitta fólk heldur vilt bara vera með þínu fólki. Sem er mjög gott. Maður sækir jú styrkinn til fjölskyldu og vina, í nánasta umhverfi.“

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Kristján Þór Júlíusson. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.