Alls hækkaði launavísitalan um 9,1% á árinu 2016. Hún hækkaði um 0,4% milli nóvember og desember, tvo seinustu mánuði ársins. Vísitalan hægði talsvert á sér frá maímánuði þegar árstakturinn náði hámarki í 13,4% hækkun frá fyrra ári. Þrátt fyrir að það hafi dregið úr hraða launahækkana hefur kaupmáttur haldið áfram að aukast og var 7,1% meiri í desember 2016 en í desember 2015. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans .

Greiningardeild Landsbankans segir að þróun launavísitölunnar á árinu 2016 sé nokkuð einstök, ef borið er saman þróun til lengri tíma. Bent er á að launavísitalan hefur ekki hækkað meira síðastliðinn aldarfjórðung. Laun í landinu hækkuðu að meðtaltali um 11,4% milli áranna 2015 og 2016 sem er mun meiri hækkun en hefur verið mæld á síðustu árum. Meðalhækkun launavísitölu á tímabilinu 1990 til 2016 var 6,5 sem er talsvert meira en gengur og gerist í nálgum löndum.

„Kaupmáttur launavísitölu náði hámarki á árinu  2007 eftir stöðuga aukningu frá árinu 1994. Á milli  áranna 2007 og 2010 minnkaði kaupmáttur launa  um rúmlega 11%  en  hefur aukist stöðugt síðan,  sérstaklega síðustu 3 ár. Kaupmátturinn fór hæst  í  ágúst 2008 og náði þeirri stöðu aftur í nóvember  2014. Frá nóvember 2014 til ársloka 2016 hefur  kaupmátturinn hækkað um tæp 15% og er nú hærri en nokkru sinni fyrr,“ er tekið fram í Hagsjánni. Kaupmáttur meðallauna á árinu hækkaði um 9,5% frá 2015 til 2016. Meðalbreyting kaupmáttar síðasta aldarfjórðunginn var 1,8%.

Landsbankinn bendir á það í lok spá sinni að endurskoðun kjarasamninga sé á næsta leyti og tekur fram að óskandi væri að viðhalda þeim stöðugleika sem hefur ríkt á íslenskum vinnumarkaði og í hagkerfinu á síðustu misserum.