Eftirlitsnefnd með framkvæmd sáttar Íslandspósts ohf. (ÍSP) og Samkeppniseftirlitsins (SKE), hér eftir kölluð nefndin, telur kvörtun Póstmarkaðarins, um meintar niðurgreiðslur úr einkarétti til alþjónustu, ekki gefa tilefni til athugasemda eða aðgerða.

Samkvæmt eldri lögum um póstþjónustu, sem giltu til síðustu áramóta, hafði ÍSP einkarétt á dreifingu bréfa upp að 50 grömmum. Þá bar félaginu einnig að sinna alþjónustu á pökkum og bögglum að 20 kílógrömmum en alþjónustan var í samkeppni við aðra aðila á þeim markaði. Aðrir þættir rekstrarins, sem hvorki töldust til einkaréttar né alþjónustu, var hreinn samkeppnisrekstur. Frá síðustu áramótum féll einkarétturinn niður og sameinaðist alþjónustunni.

Í póstþjónustulögunum er kveðið á um að gjaldskrá einkaréttar og alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Óheimilt er að niðurgreiða vörur og þjónustu í samkeppni nema það teldist nauðsynlegt til að mæta byrði sem hlaust af alþjónustunni. Hvað einkaréttinn varðar þurfti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að samþykkja allar breytingar sem lagðar voru til á gjaldskránni.

Í kvörtun var vísað til þess að árin 2016 og 2017 hefði afkoma einkaréttar verið góð, raunar svo góð að hún hafi ekki verið í samræmi við lög. Fyrrgreind ár var samanlögð afkoma einkaréttarins jákvæð um tæpan milljarð króna. Áður hefur komið fram að PFS íhugaði að afturkalla gjaldskrárákvörðun sína vegna þessa. Á sama tíma skilaði alþjónustan tapi upp á rúmlega 1,5 milljarða króna sem af stórum hluta stafaði af óhagstæðum endastöðvasamningum Alþjóðapóstsambandsins samhliða auknum fjölda sendinga frá Kína.

Hagkvæmt fyrirtæki

Kvörtun vegna málsins barst í lok nóvember 2018 en meðferð málsins dróst nokkuð, meðal annars sökum þess að um mitt síðasta sumar þurfti að skipta um fulltrúa ÍSP í nefndinni eftir að fyrri fulltrúa var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Þá vildi nefndin fá óháðan aðila til að yfirfara tölur úr rekstri ÍSP og meta það hvort félagið væri „hagkvæmt fyrirtæki“ í skilningi sáttar þess við SKE. Þá fékk félagið einnig það verk að meta stakstæðan kostnað einkaréttar, það er sá kostnaður sem hagkvæmt fyrirtæki bæri ef það framleiddi eingöngu þá tilteknu þjónustu.

Samkvæmt sáttinni, með mikilli einföldun, þurfa tekjur eins starfsþáttar að vera hærri en stakstæður kostnaður hans til að hann geti talist hafa niðurgreitt óarðbæran starfsþátt. Er um svokallað samfellupróf að ræða sem sækir fyrirmynd sína meðal annars til evrópskra mála, það er mála Deutsche Post og Post Danmark. Sá munur er á þeim málum og máli því sem hér var til skoðunar að þar var verið að horfa á niðurgreiðslur utan alþjónustu en hér meinta niðurgreiðslu innan hennar.

Það féll í hlut Grant Thornton að vinna þá vinnu en hún hófst í byrjun þessa árs og lágu niðurstöður fyrir í febrúar. Mat fyrirtækisins væri að ekkert benti til annars en að forsendur stakstæðs kostnaðar væru raunhæfar og vel ígrundaðar. Hvað varðar mat á hvort ÍSP teldist „hagkvæmt fyrirtæki“ sagði að þar væri á ferð flókið úrlausnarefni sem tæpast fengist fullnægjandi niðurstaða í innan þess tímaramma sem settur var. Almenn skoðun á hagkvæmni leiddi þó ekki í ljós neina einstaka kostnaðarliði sem gæti talist ofaukið eða ekki sæma hagkvæmu fyrirtæki.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .