Reynsla Íbúðalánasjóðs (ÍLS) af því að leigja til fólks sem er á vanskilaskrá er slæm. Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð Erlingsson, forstjóra sjóðsins, í Morgunblaðinu í dag. Íbúðalánasjóður er með tæplega þúsund íbúðir í útleigu.

Hera O. Einarsdóttir, félagsráðgjafi í Reykjanesbæ, gagnrýndi á dögunum að Íbúðalánasjóður synjaði mörgum á Suðurnesjum um leigu af því að þeir væru á vanskilaskrá.

Sigurður svarar þessari gagnrýni í Morgunblaðinu í dag og útskýrir hvers vegna sjóðurinn leigi ekki fólki sem sé á vanskilaskrá.

„Það eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi er það ekki hlutverk Íbúðalánasjóðs að leysa félagslegan vanda. Það er ekki hluti af starfsemi sjóðsins. Það er númer eitt. Í öðru lagi höfum við reynt að teygja okkur eins langt og við getum með því að samþykkja að leigja fólki með tiltekna gerð af vanskilum. Við samþykkjum ekki hvaða vanskil sem er. Reynsla okkar er sú að þegar vissir hópar eiga í hlut getum við lent í miklu tjóni. Það er stundum þannig að við fáum ekki greidda leiguna.“

Sigurður tekur fram að það séu ákveðin vanskil sem sjóðurinn horfi á þegar hann meti hvort leigja eigi fólki.

„Horfa þarf á eðli vanskila. Þetta á ekki við öll vanskil. Það eru ákveðin alvarleg vanskil sem við horfum á. Við synjum fólki um leigusamninga á grundvelli slíkra vanskila.“