*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 8. ágúst 2020 10:02

Lifa ekki á lánsfé og styrkjum

Seðlabankastjóri segir endurskipulagningu í ferðaþjónustu óumflýjanlega, rekstur sem byggi á skuldasöfnun gangi ekki til lengdar.

Alexander Giess
Ásgeir Jónsson var skipaður seðlabankastjóri síðasta sumar er hann tók við af Má Guðmundssyni.
Haraldur Guðjónsson

Þrátt fyrir að veiran sé byrjuð að dreifast á ný er mín skoðun að við getum haft stjórn á henni. Ég get ekki séð að sviðsmyndin í efnahagsmálum hafi breyst í grundvallaratriðum, að minnsta kosti ekki eins og staðan er núna. Ég eins og margir aðrir bjuggumst við að veiran myndi stinga sér aftur niður, en kannski ekki alveg svona snemma,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sótt í sig veðrið undanfarna daga, bæði hérlendis og erlendis. Frá og með föstudeginum voru 109 virk smit á Íslandi og hafa þau ekki verið fleiri síðan 28. apríl.

„Við höfum verið að sjá innlenda eftirspurn vera að bregðast mun skjótar við lægri vöxtum og öðrum aðgerðum Seðlabankans heldur en ég bjóst við. Endurkoma veirunnar mun ekki breyta þeirri heildarmynd. Hins vegar erum við alveg viðbúin því að þurfa að gera meira til þess að örva hagkerfið – ef á þarf að halda. Við munum bara þurfa að meta stöðuna þegar að því kemur,“ segir Ásgeir.

„Það er erfitt að gera sér grein fyrir framþróuninni en veiran er ekkert á förum, að minnsta kosti ekki erlendis. Við verðum því að læra að lifa með veirunni. Við Íslendingar erum samt sem áður í góðri aðstöðu til að takast á við hana, enda búum við á eyju og við náðum mjög góðum árangri í vor að kveða hana niður,“ segir Ásgeir.

Endurskipulagning mun eiga sér stað í haust

„Ég tel að aðlögun og hagræðing í ferðaþjónustu, sem sagt með sameiningum, sé óumflýjanleg. Það er raunar þróun sem var þegar hafin áður en veiran kom til sögunnar – eftir gjaldþrot WOW. Sú hugmynd að ríkið eða bankarnir myndu dæla inn styrkjum eða lánsfé inn í greinina til þess að bæta fyrir fækkun ferðamanna gengur ekki upp. Það er ekki í boði að halda uppi ferðaþjónustufyrirtækjum sem lifa á því að safna skuldum,“ segir Ásgeir.

Um næstkomandi mánaðamót mun hlutabótaleið ríkisins renna sitt síðasta skeið auk þess sem uppsagnarfrestur fjölda fólks rennur út. Einhverjir verða því fyrir frekari tekjuskerðingu sem kann að draga úr innlendri eftirspurn. Að auki er sumrinu að ljúka og munu Íslendingar því ferðast minna, staða ferðaþjónustufyrirtækja kann því að breytast talsvert um næstu mánaðamót.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.