Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur tilkynnt að „viðræðum við kröfuhafa“ sem staðið hafa yfir í þrjú ár sé lokið. Bæjarstjórninni hefur tekist að ná samkomulagi við nær alla um margvíslegar aðgerðir sem skila munu sveitarfélaginu lækkun skulda og skuldbindinga þannig að samstæða Reykjanesbæjar nái undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrir lok árs 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórninni.

Heildarskuldir Reykjanesbæjar og tengdra stofnana námu um 44 milljörðum króna haustið 2014. Endurskipulagning efnahags Reykjanesbæjar hófst fljótlega að loknum sveitastjórnarkosningum 2014 og fékk nafnið Sóknin. Hún var kynnt á íbúafundi 29. október 2014. Fimmtungur skuldanna, eða um 9 milljarðar, voru ekki umsemjanlegar.

Reykjanesbær fékk heimild innanríkisráðherra til hækkunar útsvars og fasteignaskatts til að auka tekjur sveitarfélagsins. Fjárfestingum í nýjum innviðum hefur verið haldið í lágmarki og aðeins þær nauðsynlegustu gerðar, s.s. fjölgun rýma í grunn- og leikskólum.

B-hluta fyrirtæki og stofnanir hafa verið gerðar sjálfbærar, m.a. með færslu félagslega húsnæðiskerfisins yfir í húsnæðissjálfseignarstofn (hses) eins og lög um Almennar íbúðir frá 2016 heimila.

Skuldir Reykjanesbæjar verða endurfjármagnaðar með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga sem bera helmingi lægri vexti en núverandi lán.

Nýir leigusamningar voru gerðir við Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. og félaginu skipt upp.

Á sama tíma hefur íbúum Reykjanesbæjar fjölgað mikið, langt umfram landsmeðaltal, sem hefur fært sveitarfélaginu hærri tekjur.

Allar ofangreindar aðgerðir og samningar munu skila Reykjanesbæ lækkun skulda og skuldbindinga sveitarfélagsins til ársins 2022, en Aðlögunaráætlunin gildir til þess tíma.