Þegar Kaupþing lánaði 1998 ehf. sumarið 2008 gengust eigendur félagsins, Gaumur, Bague og Eignarhaldsfélagið ISP, í svokallaðar pro-rata ábyrgðir. Það þýðir að félögin ábyrgðust endurgreiðslu lánsins ef önnur veð myndu ekki duga.

Öll félögin eru í dag nánast eignalaus og því ljóst að þau munu litlu skila í endurheimtum. Arion banki hefur enn ekki gengið á félögin vegna ábyrgðanna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að auk þess hvíli engar persónulegar ábyrgðir á eigendum félaganna þriggja vegna lánveitinganna til 1998. Gaumur er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu hans, ISP er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eiginkonu hans, og Bague er í eigu Hreins Loftssonar og fjögurra annarra einstaklinga.

Arion banki gerði nokkurra vikna kyrrstöðusamning við Gaum í september 2010 sem veitti bankanum tækifæri til að sannreyna eignarstöðu félagsins. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að sá samningur hafi einungis verið til nokkurra vikna og hafi runnið út í október eða nóvember í fyrra.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er greint frá því að Arion banki afskrifaði 21,6 milljarða króna af skuldum 1998 ehf. um síðustu áramót. 1998 ehf. skuldaði bankanum 55 milljarða króna samkvæmt síðasta birta ársreikningi. Því var 33,4 milljarða króna skuld enn inni í félaginu.

Það er þó ekki þannig að um eiginlegt tap sé að ræða fyrir Arion banka. Við uppgjör milli hans og gamla Kaupþings var samið um að 40 stærstu lánin sem Arion tæki við væri afmörkuð (ring-fenced) með þeim hætti að gamli bankinn fengi megnið af því sem innheimtist af þessum lánum umfram grunnvirði þeirra. Í staðinn voru lánin færð yfir í Arion á mjög lágu verði. Lánið til 1998 ehf. var eitt þeirra lána sem voru afmörkuð með þessum hætti. Tap vegna lánsins lendir því alltaf á kröfuhöfum gamla Kaupþings.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.