„Fjármálaeftirlitið hefur ekki verið í sambandi við Kaupþing vegna mögulegra inngripa í starfsemi Kaupþings.“  Þetta kemur fram í tilkynningu sem Kaupþing sendi frá sér í morgun.

Kaupþing sendir út tilkynninguna í kjölfar lagasetningar Ríkisstjórnar Íslands í gærkvöldi sem leyfir Fjármálaeftirlitinu að grípa inn í rekstur íslenskra fyrirtækja.

Í tilkynningunni staðfestir Kaupþing einnig að Seðlabanki Íslands hafi veitt bankanum lán að fjárhæð 500 milljónir evra og segjast munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að „tryggja eðlilegt gangverk fjármálakerfisins á Íslandi.“