Seðlabanki Íslands stendur við fyrri spár sínar um að stýrivaxtalækkunarferli bankans muni ekki hefjast fyrr en á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, jafnvel þó svo að efnahagskerfið sýni merki um frekari samdrátt.

Þetta hefur Bloomberg fréttastofan eftir Arnóri Sighvatssyni, aðalhagfræðingi Seðlabankans í dag.

Hann segir í samtali við Bloomberg að verðbólga hafi mælst meiri en búist var við, krónan veikari og vinnumarkaðurinn hafi verið stöðugri en áður hafði verið gert ráð fyrir.

„það er þó ekkert í þessum tölum sem gefa tilefni til þess að bankinn víki frá stefnu sinni,“ segir Arnór í símaviðtali við Bloomberg.

Arnór ítrekar þó að hagtölur Seðlabankans séu gerðar af starfsmönnum bankans sem hafi ekki með stefnumótun hans að gera. „Ég tala ekki fyrir hönd bankastjóranna,“ segir Arnór.

Stýrivextir Seðlabankans verða næst kynntir þann 11. september n.k.