Englandsbanki tilkynnti í morgun um tímabundna áætlun sína sem heimilar bönkum að skipta á fasteignatryggðum skuldabréfavafningum fyrir bresk ríkisskuldabréfa. Englandsbanki hyggst ráðast í útgáfu ríkisskuldabréfa fyrir um 50 milljarða sterlingspunda. Aðgerðum bankans er ætlað að lækka fjármagnskostnað og bregðast við þrengingum á fasteignamarkaði.

Í tilkynningu frá Englandsbanka sagði að útgáfa ríkisskuldabréfa fyrir 50 milljarða punda myndi bæta seljanleika í bankakerfinu, jafnframt því að auka traust á fjármálamörkuðum. Með því að bjóða bankastofnunum ríkisskuldabréf eykur hann fjármagn þeirra og gerir þeim auðveldara fyrir að lána.

Frá því að lánsfjárkreppan hófst síðasta sumar hafa bankar í auknum mæli setið uppi með á bókum sínum illseljanlegar eignir sem hafa lækkað mikið í verði í núverandi árferði á mörkuðum, sem hefur gert það að verkum að bankar hafa ekki getað veitt ný útlán.

Seðlabankinn sagði að ástandið á fjármálamörkuðum væri ekki eðlilegt um þessar mundir. Því væri nauðsynlegt að grípa til aðgerða – annars væri hætta á enn víðtækari afleiðingum fyrir sjálft raunhagkerfið.

Bönkum mun bjóðast þessir skiptasamningar í eitt ár, en heimilt verður að endurnýja þá til allt að þriggja ára. Bankarnir bera allt hugsanlegt tap vegna útgáfu ríkisskuldabréfanna.

Alistair Darling, fjármálaráðherra, hefur sagt að ekki sé útilokað að ráðist verði í frekari skuldabréfaútgáfu ríkisins.