„Sjálhverfa kynslóðin“ er ekki samnefni „hrunkynslóðar“. Sjálfhvert er fólkið af því það er stöðugt talandi um eigin hag og eigin vandamál en lætur sig aðra litlu varða.

Þetta segir Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, í grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann svarar gagnrýni þeirra Karls Sigfússonar og Guðmundar Andra Thorssonar.

Töluverð umræða hefur spunnist um skilgreiningar Sighvats á hinni sjálfhverfu kynslóð og svaraði Karl honum meðal annars í grein þar sem hann fjallaði um eignastöðu fólks í landinu. Í grein Karls sagði meðal annars eftirfarandi:

Þegar hlutfallsleg eignastaða á milli kynslóða er skoðuð opinberast hin slæma staða þeirra yngri enn frekar. Hlutfallsleg eignastaða þeirra sem eru 45 ára og yngri hefur gjörsamlega hrunið í samanburði við aðrar kynslóðir eða frá því að vera um 20% af eignum allra einstaklinga á árunum frá 1996 - 2006 niður í það að vera MÍNUS 2% árið 2011. Á sama tíma hefur hlutfallsleg eignastaða Sighvats-kynslóðarinnar vaxið frá því að vera 29% árið 2006 í 44% árið 2011. Það sama er að segja um eignastöðu þeirra sem eru á aldrinum 76-90 ára, en eignastaða þess virðulega hóps var um 15% af heildareignum einstaklinga árið 2006 en er í dag um 23%.

Þessu svarar Sighvatur í dag:

Ástæðan? Hún er einfaldlega sú, að ungt fólk í blóma lífsins skuldaði meira en gamla fólkið á sínu ævikvöldi. Þegar bókfærðar skuldir jukust vegna hruns ónýtrar myntar hækkuðu bókfærðar skuldir í hrunkrónunni mest hjá þeim sem mest skulduðu – en minna hjá hinum sem höfðu að mestu greitt sínar skuldir á langri ævi. Niðurstaðan hefur óhjákvæmilega orðið sú, að eignastaða ungs fólks hefur versnað en sýnist hafa batnað hjá gamla fólkinu – en mæld í miklu verðminni krónum en var fyrir hrun.